Skip to content


KROTAÐI TIL ÞESS AÐ LIFA AF

Alma Mjöll Ólafsdóttir er 22 ára ungmær upprunalega úr Kópavogi en hefur sest að í miðbænum og mun líklega ekki flytja þaðan viljug. Hún er margs megnug og og hefur sérstakan áhuga á list og öllu sem því tengist. Hún byrjaði að teikna og selja myndir til þess að eiga fyrir mat og í dag er hún að opna sýningu á Hönnunarmars.

Við erum mjög spenntar yfir fyrstu opnun Ölmu Mjallar sem verður þann 27. mars á Hönnarmars. Sýningin mun standa í þrjár vikur og er í Dusted (sem er gallerí/búð) á Pósthússtræti. Alma tileinkar sýninguna fólki sem hún lítur upp til og á sýningunni má finna portreit mynd af alls kyns snillingum. Sýningin byrjar kl. 20:00.

Alma er ólærður teiknari sem óskar þess heitast að verða einhvertíma eitthvað annað en Krotari en hún lætur það duga í bili. Krotið finnst henni samt ágætt. Það krefst einskis og þess vegna líka er það heiðarlegt og einlægt. Hún teiknar fólk eins og hún sér það og eins vel og hún getur. „Stundum verður fólk að bjúgum í mínum stíl en stundum gerist líka eitthvað fallegt og satt. Sýningin mín er tileinkuð ímynduðum vinum mínum, stórkostlegum meisturum sem hafa kennt mér allt sem ég kann“ segir Alma.

Alma byrjaði á þessu þegar hún var atvinnulaus. „Ég var svöng og vantaði pening fyrir mat og öðrum hversdagslegum lúxusum. Ég reyndi að selja vinum mínum smásögur og ljóð en aðeins fáeinir höfðu áhuga. Svo datt mér í hug að gera myndir af fólki fyrir 250 kall. Þær seldust eins og heitar lummur og hægt og rólega fór fólk sem ég þekkti lítið sem ekkert að panta og fyrir allskyns tækifæri. Þá þurfti ég að vanda mig aðeins meira og kaupa betri penna og pappír “. Krotið stækkaði og fleira fólk fór að panta. Nýtt líf pantaði mynd og stuttu seinna hafði eigandi Dusted samband við Ölmu og bauð henni að sýna hjá sér. „Allt í einu var ég komin með opnun á Hönnunarmars og verkefnin mín stækka hægt og rólega“ segir Alma.

Hér má sjá viðburð Ölmu & hér verk hennar. Við hlökkum mikið til að kíkja við enda er eitthvað við það hvernig hún Alma krotar.
img026 (1) img019
-Rebekka Rut Gunnarsdóttir

Posted in ART, PEOPLE.

Tagged with , , , , , , , , , .


0 Responses

Stay in touch with the conversation, subscribe to the RSS feed for comments on this post.Some HTML is OK

or, reply to this post via trackback.